Uncategorized

„Það er ekki hægt að ala upp góða menn nema í fallegu umhverfi“

„Það er ekki hægt að ala upp góða menn nema í fallegu umhverfi“ eru orð Guðjóns Samúelssonar um gerð Þjóðleikhússins. Ég rakst á þessa setningu í minningargrein um Guðjón þegar ég vann að undirbúningi Hulduheims og hún hefur fylgt mér síðan sem eins konar mantra í gegnum vinnuferlið. Þessi fallega setning kemur nú í formi vegglímmiða í þremur litum og fæst meðal annars í IÐU.

vegglimmidi-01

Uncategorized

Nýr endursöluaðili – IÐA

Það gleður mig að segja frá því að IÐA í Lækjargötu 2a Reykjavík er nýjasti endursöluaðilinn minn. Í IÐU fæst dásamlegt úrval af fallegum bókum og fjölbreyttri gjafavöru og tilvalið að kíkja þar inn á Laugarvegslabbinu. Í IÐU fást merkimiðar, gjafapappír og vegglímmiðar, en ég mun setja inn myndir af vegglímmiðunum bráðlega. Það er kominn linkur á heimasíðunni þar sem má finna alla endursöluaðilana mína, en ég hvet ykkur til þess að hafa samband ef þið getið ekki nálgast vörurnar í ykkar heimabyggð – pósturinn reddar jú langflestu milli landshorna.

M

Uncategorized

Jólaandinn í Kraum

Ég fékk skemmtilega símhringingu í byrjun október þar sem mér var boðið að taka þátt í jólasýningu á vegum Handverks og Hönnunar. Sýningin er á Skörinni í Kraumi og stendur yfir jólin. Tuttugu hönnuðir og listamenn voru fengnir til þess að pakka inn og skreyta jólapakka eftir eigin höfði sem nú eru til sýnis. Ég ákvað að nota gjafapappírinn úr vörulínunni minni og þó svo að munstrin séu ekki hönnuð með jólin í huga fannst mér ágætis áskorun að nýta pappírinn við þetta tilefni og sýna að það þarf ekki mikið til að skapa jólastemningu, einn köngull úr garðinum og fín slaufa gerir jólakraftaverk (ég fattaði því miður ekki að taka mynd af pökkunum áður en þeir fóru suður). Ég hannaði svo merkimiða sérstaklega til að passa við gjafapappírinn og hér má nálgast útprentanlegt PDF skjal af þeim jolamerkimidar –  mín jólagjöf til þín. Gestir og gangandi geta nú lagt leið sína í Kraum og fá jólin beint í æð (og kanski hugmynd að frumlegri innpökkun).

jolamerkimidar

Uncategorized

Jólagjafaóskalisti

Ragnheiður Ragnarsdóttir, hönnuður hjá M-design og andlit New CID á Íslandi, er smekkkona mikil og fyrir helgi deildi hún jólagjafaóskalista í pistli inná mbl. Það er gaman að segja frá því að púðarnir úr Hulduheim eru á listanum, ekki amaleg meðmæli það. Áhugasamir geta séð listann hennar Röggu hér – margt fallegt sem þið kanski vissuð ekki að ykkur langaði í.

Annars er aðventan framundan með tilheyrandi kósýheitum og fjölskyldustundum. Ég ætla að nýta þá daga sem eftir eru af nóvember til að uppfæra heimasíðuna með fleiri myndum og tenglum. Þið ykkar sem eruð áhugasöm um að nálgast vörur frá mér endilega hikið ekki við að hafa samband.

Góðar stundir

M

 

Uncategorized

Handverk og hönnun

Hjartans þakkir kæru Reykvíkingar fyrir frábærar og fallegar viðtökur á Handverk og Hönnun í Ráðhúsinu. Það var bæði gaman og gefandi að segja frá vörulínunni minni, finna áhugann og upplifa Hulduheim með ykkar augum. Þessir fimm dagar voru mér mikil hvatning og ég held nú ótrauð áfram við að þróa og vinna vörulínunna. Ég hvet þá sem hafa áhuga á vörunum en geta ekki nálgast þær í sinni heimabyggð að hafa samband í gegnum netfang eða facebook, það er lítið mál að afgreiða vörurnar símleiðis og senda út á land. Á næstu misserum koma svo fleiri myndir hér inn svo þið getið fylgst með því sem í boði er.

Bestu kveðjur

María Rut

IMG_4139

Uncategorized

Brot

Það er ærin ástæða til þess að fjalla um munstrið Brot í dag þar sem að byggingin sem munstrið er innblásið af á einmitt afmæli í dag 1. nóvember. Byggingin sem um ræðir er hús Héraðsskólans á Laugarvatni, en bygging þess hófst árið 1928 og það svo fullgert á næstu árum. Héraðsskólinn er reistur í svokölluðum burstastíl Guðjóns Samúelssonar, en á fyrstu árum ferils síns gerði hann margar tilraunir til þess að endurgera hið dæmigerða íslenska hús, torfbæinn, í steinsteypu. Dæmi um fleiri byggingar í þessum stíl eftir Guðjón er Valhöll, Litla Hraun og forsetisráðherrabústaðurinn á Þingvöllum. Þá var fyrsta tillaga Guðjóns að Sundhöll Reykjavíkur einnig í burstastíl, en hana lagði hann fram á alþingi árið 1923. Sú tillaga náði ekki hljómgrunni en árið 1928 lagði Guðjón fram teikningar af þeirri sundhöll sem við þekkjum í dag og var hún reist með sameiginlegu átaki ríki og bæjar. En aftur að afmælisbarninu; Héraðskólinn er mjög myndarlegt hús og staðsetning þess með eindæmum falleg og vel heppnuð. Í dag er þar rekið Hostel sem hefur vakið mikla lukku og gaman að sjá að húsið hafi fengið nýtt hlutverk. Við gerð Brots vann ég með burstir hússins, form þeirra og negatíva plássið á milli. Útkoman er reisulegt munstur sem kallast á við bygginguna. Brot kemur í tveimur litaútfærslum, annars vegar sandlitt og svargrátt (sjá mynd að neðan) og sandlitt og blágrænt, en síðarnefnda samsetningin á vel við þar sem þak hússins er í dag grænt.

brot-06

Uncategorized

Vörur í verslunum og breyttur opnunartími

Það gleður mig að tilkynna að gjafapappír úr Hulduheimi fæst nú í Safnbúð Þjóðminjasafnsins ásamt merkimiðunum fínu. Þá hafa merkimiðarnir einnig numið land á Ísafirði og fást hjá Kaupmanninum.

Sjálf er ég mikill aðdáandi Þjóðminjasafnsins og fer ekki suður nema að kíkja þangað inn. Nú er í gangi sýning sem heitir Silfur Íslands, en um er að ræða einstaklega fallega og vel upp setta sýningu á silfurmunum úr fórum safnsins. Ég hvet alla til líta á þessa smágerðu en stórbrotnu sýningu. Eftir rölt um safnið er svo tilvalið að kíkja í Safnbúðina og setjast svo niður og fá sér kaffibolla.

Kaupmaðurinn er tiltölulega ný verslun á Ísafirði og bíður upp á úrval íslenskrar hönnunvöru af ýmsu tagi, svo sem fatnað, fylgihluti, skart og skemmtilega hluti fyrir heimilið. Ég hef ekki haft tækifæri til að koma þar inn sjálf en af myndunum úr versluninni að dæma er þar margt fallegt til að gleðja augað og öll umgjörð og uppsetning fagmannlega úr garði gert. Þeir kunna þetta Ísfirðingar!

Úti er nú fínasta haustveður og Flóra er farin í haustfrí til 3 nóvember. Hér á vinnustofunni minni verður hinsvegar áfram opið þó svo að útidyrahurðin sé læst. Viðverutími minn er 09:00 – 14:30 ef einhver vill líta við (um að gera að banka) en annars er hægt að hafa samband gegnum síma eða netfang.

Njótið vikunnar

María