Það fór mikill tími í undirbúningsvinnu fyrir gerð munstranna í Hulduheimi, en meðal þess sem ég gerði var að ljósmynda margar af byggingum Guðjóns. Ein af þeim var Laugarneskirkja en hún er vel falinn gimsteinn í Teigahverfinu, Reykjavík. Þegar ég gekk að kirkjunni kom ég að henni að aftan og eftir að hafa labbað hringinn varð mér litið upp og tók eiginlega andköf. Kirkjan er sláandi lík Akureyrarkirkju, líkt og smækkuð mynd af henni, en er samt svo ólík henni og algjörlega sérstök. Einkennandi turninn varð að innblástri fyrir munstrið Drangar auk þess sem fallegi sandlitur kirkjunnar er einn af litunum í palettunni Bergtónar. Munstrið er látlaust, eins og kirkjan, en samt svo tignarlegt og er það munstur sem ég sá fyrir mér sem einskonar bakgrunn fyrir hin munstrin, en það gefur svip án þess þó að vera áberandi.