Ég hef unnið nokkur verkefni fyrir Norðurorku – orku- og veitufyrirtæki sem stofnað var árið 2000 með sameiningu Hita- og Vatnsveitu Akureyrar og Rafveitu Akureyrar. Meginhlutverk Norðurorku er að þjónusta heimili og atvinnulíf með vinnslu og dreifingu á heitu vatni og neysluvatni, dreifingu á raforku, rekstur og uppbyggingu fráveitu og taka þátt í starfsemi sem nýtt getur auðlindir á starfssvæðinu sem og rannsóknir, þekkingu eða búnað félagsins til eflingar samfélagsins.
Hér fyrir neðan má sjá auglýsingu sem ég gerði fyrir Norðurorku sem auglýsti „Umhverfisvæn orka – umhverfisvænt samfélag“ og vitnar þar í gildi þess að hjóla auk eigin framleiðsluvöru. Auglýsingin birtist í blaði sem heitir Hjólabærinn Akureyri og er gefið út af Hjólreiðafélagi Akureyrar. Auglýsingin er teiknuð með það í huga að hjól væru fyrir alla – enda lítið því til fyrirstöðu að fólk nýti sér þennan frábæra ferðamáta.
Annað verkefni var hönnun fræðsluefnis fyrir Norðurorku. Um er að ræða fjögur plagöt sem sýna: hringrás vatns, hitaveitu, vatnsveitu og rafveitu. Plagötin fyrir veiturnar eru hönnuð þannig að það má nota brot úr hverju þeirra í t.d. glærusýningu, sem myndefni í skýringartexta eða skýrslu eða hluta af auglýsingu. Myndirnar eru teiknaðar inní í sexhyrninga og vísa þannig í merki fyrirtækisins.