Uncategorized

Merkimiðar á pakka

„Sælla er að gefa en þiggja“ er frasi að mínu skapi og það sem meira er; mér finnst gaman að pakka inn gjöfum. Ég lendi hins vegar oft í vandræðum þegar kemur að því að merkja gjafirnar, oftar en ekki eru kort óþarflega stór og kosta líka formúgu. Ég kaupi því oft litla merkimiða og á í handraðanum fyrir óvæntar veislur, því þó svo ég sé ekki mikið fyrir að skrifa stór kort þá finnst mér mikilvægt að merkja gjafirnar. Það var því eðlilegt framhald að hanna merkimiða í stíl við gjafapappírinn með munstrunum úr Hulduheim. Ég ákvað að nota litina úr línunni en vildi hafa þá stílhreina og einfalda. Úr varð að prenta þrjá frasa á netta miða sem má skrifa á beggja vegna. Frasarnir passa við flest tækifæri og einn miðinn býður meira að segja uppá að filla út tilefnið. Miðarnir koma allir gataðir og því er auðvelt að hengja þá á fallegar gjafir.

3midar-01

Hulduheimur

Gjafapappír / Plagöt

Það var erfitt að velja hvaða munstur fengju þann heiður að vera prentuð á gjafapappír. Valið vandaðist aftur þegar kom að því að velja liti. Að lokum voru það fjögur munstur sem urðu fyrir valinu; Álfhóll, Stuðlar, Drangar og Brot. Við val á litum ákvað ég að nota einn af hverjum lit úr Litadýrð og svo tvílitt munstur úr Bergtóna. Munstrin eru prentuð á þykkann, milliglansandi pappír sem er gott að brjóta og pakka inn með. Einn viðskiptavinur stakk svo uppá því að arkirnar gætu komið vel út sem plagöt en hún verslaði Dranga og Álfhól og ætlaði að hengja uppá vegg hjá sér. Mér datt svo í hug að það gæti líka verið skemmtilegt að ramma pappírinn inn, hér er hann sýndur í ramma frá IKEA.

rammar_gjafapappir-01

Hulduheimur

Stuðlar

Ein af byggingum Guðjóns Samúelssonar er mér mjög kær, en það er Akureyrarkirkja. Hún er ekki bara bæjarprýði okkar Akureyringa heldur eiga margir tengingu við hana. Við hjónin erum gift í Akureyrarkirkju, dóttir okkar er skírð þar og svo höfum við sótt ýmsar athafnir í tengslum við gleði- og sorgarstundir okkar nánustu þar. Kirkjan er í svokölluðum hamarsstíl Guðjóns en turnar hennar minna óneitanlega á stuðlaberg. Kirkjan er eins og áður sagði eitt af kennileytum Akureyrar og gnæfir yfir bænum frá því sem margir hafa nefnt fegursta kirkjustæði landsins. Munstrið Stuðlar vann ég út frá formunum í turnum kirkjunnar og reyndi að fanga tilfinninguna um stuðlabergið sem rís eins og hamar úr jörðu.

strengir-02

Uncategorized

Álfhóll

Eitt af mínum uppáhalds munstrum í línunni heitir Álfhóll og er innblásið af Þjóðleikhúsinu. Guðjón var sjálfur afar hugfanginn af fjöllum Íslands, hamrinum og stuðlaberginu, og sá fyrir sér að þar byggju álfar og huldufólk. Um gerð Þjóðleikhússins sagði hann eftirfarandi:

„Þegar ég byrjaði á uppdrættinum, komu strax í hug minn þjóðsögur okkar um huldufólkið og hamrabergsmyndun okkar. Hvorttveggja er rammíslenzkt. Í fátækt sinni dreymdi þjóðina, að hin dásamlega fegurð, skraut, ljós og ylur, væri í híbýlum huludufólksins, hinum risavöxnu hömrum hins náttúrumeitlaða bergs. Á hugsjón þessari reisti ég Þjóðleikhúsið sem voldugan hamar, þar sem fegurð lífsins blasir við, þegar í hamarinn er gengið“.
Úr bókinni Íslenzk Bygging

Formin í munstrinu eru fengin úr einkennandi ljósum stuðlum sem standa út á milli veggja Þjóðleikhússins.

alfholl-01

Hulduheimur

Gjafapappír

Þegar ég sýndi útskriftaverkefnið mitt var áherslan á textíl, en til gamans þá lét ég prenta munstrin líka á gjafapappír til að sýna hvernig mætti yfirfæra þau á fleiri miðla. Það er gaman að segja frá því að tvö munstur fara í prentun á gjafapappír á næstu dögum og verða vonandi komin í búðir fyrir júnílok. Pappírinn er þykkur, litríkur og hentar utan um gjafir handa báðum kynjum og börnum.

pappir_web

Hulduheimur

Draumur lítur dagsins ljós

Eftir þriggja ára nám í Myndlistaskólanum á Akureyri er nú komið að útskrift. Við val á lokaverkefni sameinaði ég áhuga minn á textíl og grafískri hönnun, með þessari heimasíðu langar mér að halda utan um framhald verkefnisins og fylgja því eftir. Hér að neðan má sjá texta úr kynningarbæklingi sem ég vann fyrir verkefnið auk mynda.

Úr kynningabæklingnum:

Það er mér mikilvægt að hafa sterka tengingu við eigin hönnun, að hún sé sköpuð af ástríðu og natni, aðeins þannig tel ég hana eiga erindi heim til annara. Fyrsta afurð mín er lína af munstruðum efnum sem nefnist Hulduheimur og er innblásin af verkum Guðjóns Samúelssonar (1887-1950), en eftir hann standa margar af þekktustu og fegurstu byggingum Íslands. Meðal verka hans eru Hallgrímskirkja, Þjóðleikhúsið, Sundhöll Reykjavíkur, Listasafn Íslands, Akureyrarkirkja og aðalbygging Háskóla Íslands.

Bygginar Guðjóns eru stílhreinar, reisulegar og formfastar. Ég tengi þær við munsturgerð og eigin dálæti á reglu og skipulagi. Form sem speglast og eru endurtekin, línur sem teygja sig áfram, brotna og mætast. Allt þetta myndar fallega heild án þess þó að vera fyrirsjáanlegt. Í steinsteypunni sé ég skýra tenging við náttúruna; fjöllin, bergið og víðáttuna, ég sé í þeim híbýli huldufólks.

Mín von er að efnin veiti þér innblástur til þess að skapa fallega hluti fyrir eigið heimilið eða til gjafa. Hannaðu þinn eigin Hulduheim.

forsida_web